Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir um matvæli og landbúnað

Kvörtun vegna ákvörðunar Landgræðslunnar

Úrskurður

 

Fimmtudaginn, 25. maí 2023, var í matvælaráðuneytinu 

kveðinn upp svohljóðandi úrskurður: 

 

Stjórnsýslukæra

Þann 11. nóvember 2022 barst ráðuneytinu erindi frá A f.h. landeiganda (hér eftir nefndur kærandi) þar sem fram kemur að kærð sé sú ákvörðun Landgræðslunnar að hafna greiðslu á styrk að upphæð 273.000 úr Landbótasjóði vegna framkvæmda landeiganda sumarið 2022. 

Fyrrgreind ákvörðun var kærð á grundvelli 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og barst erindi kæranda innan kærufrests.  

 

Kröfur

Þess er krafist að Landgræðslunni verði skylt að greiða kæranda styrk að upphæð 273.000 kr úr Landbótasjóði.  

 

Málsatvik

Árlega úthlutar Landbótarsjóður Landgræðslunnar styrkjum til að styðja félagasamtök, bændur, sveitarfélög og aðra umráðahafa lands við verndun og endurheimt gróðurs og jarðvegs. Ákvörðun um styrkveitingar byggir á markmiðum laga nr. 155/2018 um landgræðslu. 

Kærandi lagði inn umsókn til greiðslu úr Landgræðslusjóði Landgræðslunnar þann 24. janúar 2022 og rúmlega mánuði síðar, 16. febrúar 2022, lagði hann fram landbótaáætlun í samræmi við reglur Landbótasjóðs Landgræðslunnar. Í umræddri Landgræðsluáætlun voru taldir upp sex þættir sem óskað var eftir stuðningi við úr Landbótasjóði.  

Var kæranda sent bréf, dags 3. mars 2022, þar sem honum var tilkynnt um að Landgræðslan hafði fallist á að veita honum styrk að upphæð 273.000 kr til tveggja tilgreindra verkefna. Úthlutun styrksins var miðuð við að þær lágmarksaðgerðir yrðu fólgnar í að 1) sina og gras yrði slegið af ca. 3 ha túni og ekið í börð og rofsvæði (áætlað magn 25 rúllur) og að 2) efni yrði ekið í jarðvegsmanir (áætlað 25 m2). Þó var hafnað að veita styrk til annarra verkefni sem sótt var um. Nánar tilgreint til 1) aksturs byggingarsorps og annars í rofabörðum, 2) viðhaldi við stíflu í Torfalæk, 3) verja viðkvæmustu svæðin með girðingu (800 m fyrri áfangi) og 4) niðurrif girðinga.  

Ráðuneytinu barst kvörtun dags, 19. apríl frá kæranda vegna höfnunar Landgræðslunnar til að styrkumsóknar að hluta. Að auki var lögð fram beiðni um viðtal við ráðherra og óskað eftir sértæku úrræði á fjárveitingum. Óskaði ráðuneytið þá eftir umsögn Landgræðslunnar vegna málsins auk gagna málsins og barst sú umsögn þann 16. júní 2022.  

Ráðuneytið svaraði fyrrgreindri kvörtun efnislega með bréfi til kæranda dagsett, 4. nóvember 2022. Kom þar m.a. fram að skv. þeim upplýsingum sem liggja fyrir í málinu var það mat ráðuneytisins að Landgræðslan hafði ekki brugðist því lögbundna hlutverki sem skilgreint er í lögum nr. 155/2018 um landgræðslu. Að auki kom fram að ráðuneytið hedði ekki undir höndum sérstakt fjármagn til að veita kæranda. Þann sama dag, 4. nóvember 2022, barst kæranda bréf frá Landgræðslunni þar sem tilkynnt var að stofnunin hefði ákveðið að hafna greiðslu á þeim styrki sem stofnunin hafði áður samþykkt að veita úr Landbótasjóði.  

Með bréfi, dags. 11. nóvember 2022, var ákvörðun Landgræðslunnar kærð til ráðuneytisins. Óskaði ráðuneytið eftir umsögn Landgræðslunnar vegna málsins auk gagna málsins og barst sú umsögn þann 28. desember 2022. Í kjölfarið var kæranda gefinn kostur á að koma andmælum sínum á framfæri vegna umsagnarinnar og bárust andmæli kæranda þann 14. janúar 2023.

Málið er tekið til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna.  

 

Sjónarmið kæranda

Í stjórnsýslukæru kæranda, dags 11. nóvember 2022, kemur fram að kærandi byggi á því að ákvörðun Landgræðslunnar brjóti gegn lagalegum tilgangi stofnunarinnar. Auk þess telur kærandi að með þessu ráðist Landgræðslan gegn tilraunum landeiganda til að hamla gegn útblæstri og mismuni þeim í samanburði við aðra bændur í arðbærum búrekstri.  

Þá kemur fram í framkvæmdarskýrslu kæranda að framkvæmdarinnar sem áttu sér stað á landi hans sumarið 2022 höfðu verið víðamiklar. Töldu landeigendur brýnast að byrja á því að girða viðkvæmasta svæðið. Var þá ákveðið að aka mold í manir og viðhalda jarðvarnsborði með stíflunni í Torfalæk þar sem nýgræðingur hafði tekið að myndast skjólmegin við manirnar. Var þá girt vönduð girðing úr túnneti kringum Litlufit, þar sem mesta hættan er af landeyðingu þar með talið í kringum þennan nýgræðing. Einnig var úrgangi ekið í melabörð, byggingarefni og girðingum. Að lokum voru miklar framkvæmdir unnar varðandi aðstöðu og umferð ferðafólks og var lögð áhersla á að leggja göngustíga þannig að átroðningur yrði ekki á viðkvæm svæði.  

Bendir þá kærandi á að þegar kom að þeim þáttum að aka jarðvegi og sinu í uppblásturssvæði biluðu tækin sem nota átti.  Ekki reyndist unnt að koma þeim í lag á þessu sumri, og því varð ekki af þessum akstri. Þá telur kærandi sanngjarnt að Landgræðslan styrki tækjakaup sérstaklega en þar sem stofnunin hefur neitað því eigi hún að bera ábyrgð á því að ekki voru til staðar nothæf tæki til þess að standa við þann hluta verkáætlunarinnar. 

Af öllu framangreindu krefst kærandi þess að Landgræðslan greiði veittan styrk að upphæð 273.000 kr úr Landbótasjóði.  

 

Sjónarmið Landgræðslunnar 

Landgræðslan byggir ákvörðun sína um að hafna veita kæranda umræddan styrk úr Landbótasjóði á þeim framkvæmdum sem hann réðst í sumarið 2022 með þeim röksemdum að ekki var unnið að þeim verkefnum sem styrkurinn var ætlaður til.  

Vísar stofnunin til bréfs sem sent var kæranda dags, 3. mars 2022 þar sem fallist var á úthlutun styrks til landeiganda að upphæð 273.000 kr til tveggja tilgreindra verkefni. Kom þar fram að styrkveiting miðast við 1) sina og gras væri slegið af ca. 3 ha túni og ekið í börð og rofsvæði og 2) ekið sé efni í jarðvegsmanir. Í umræddu bréfi kom þá skýrlega fram að ekki yrði veittur styrkur til 1) aksturs byggingarsorps og annars í rofabörð, 2) viðhald stíflu í Torfalæk, 3) uppsetning girðinga á viðkvæmustu svæðin og 4) niðurrif girðinga. Þá bendir stofunin að það hafi komið skýrlega fram í umræddu bréfi að Landbótasjóður leggi ríka áherslu á að grundvöllur styrkveitingar sé að unnið sé í samræmi við úthlutun.  

Telur stofnunin að ekki verði annað séð af framkvæmdarskýrslu kæranda fyrir sumarið 2022 að ekki hafi verið ráðist í þær framkvæmdir sem styrkurinn var ætlaður til.  Hafði kærandi í stað þess meðal annars girt viðkvæmasta svæðið, ekið mold í manir og viðhaldið jarðvarnsborði með stíflunni í Torfalæk en það voru einmitt þau verkefni sem stofnunin hafði ekki fallist á að veita styrk til.  

Þá hafnar Landgræðslan því að bera ábyrgð á biluðum tækjum og þá um leið þeim afleiðingum þess að ekki reyndist unnt að vinna tilstyrkt verkefni sumarið 2022. Þá bendir á að í reglum Landbótasjóðs Landgræðslunnar kemur skýrt fram að sjóðurinn styrki m.a. ekki tækjakaup. Í samræmi við þetta hefur sjóðurinn ekki styrkt bændur eða aðra landeigendur til tækjakaupa eins og kærandi heldur fram.  

Í ljósi framangreinds telur Landgræðslan ekki annarra kosta völ en að hafna greiðslu styrks úr Landbótasjóði til landeiganda. Ljóst er að ekki var unnið að styrktum framkvæmdum sem og að unnið var meðal annars að framkvæmdum sem sérstaklega hafði verið tilgreint að ekki yrðu styrktar.  

 

Forsendur og niðurstaða

Landbótasjóður er sjóður á vegum Landgræðslunnar sem leggur honum til fé til úthlutunar, auk þess sem aðrir aðilar geta lagt sjóðnum til fjármuni. Landgræðslan úthlutar árlega styrkjum úr sjóðnum, en tilgangur þeirra er að færa ábyrgð og framkvæmd landgræðsluverkefna heim í héruð og veita landeigendum, sveitarfélögum, félagasamtökum og öðrum umráðahöfum lands, styrki til landbótaverkefna.  

Í gildi eru lög um landgræðslu nr. 155/2018. Í 1. gr. þeirra kemur fram að markmið laganna sé að vernda, endurheimta og bæta þær auðlindir þjóðarinnar sem fólgnar eru í gróðri og jarðvegi og tryggja sjálfbæra nýtingu lands. Þá kemur fram í 8. gr laganna að Landgræðslunni sé heimilt að hvetja til og styðja við verkefni sem eru í samræmi við markmið laganna.  

Reglur um Landbótasjóð Landgræðslunnar eru í gildi. Í 1. grein þeirra kemur fram að markmið Landbótasjóðs sé að hvetja og styðja umráðahafa lands til verndunar og endurheimta þurrlendisvistkerfa auk þess að stöðva hnignun vegna jarðvegsrofs og gróðureyðingar. Þá kemur fram í 3. grein að við mat á umsóknum er lögð áhersla á verkefni sem taka mið af markmiðum laga nr. 155/2018 um landgræðslu er varða sjálfbæra landnýtingu, vernd, endurheimt vistkerfa og stöðvun eyðingu jarðvegs og gróðurs. Í 5. gr grein kemur fram að styrkþegar eru ábyrgir fyrir umsjón og framkvæmd verkefna og að unnið sé í samræmi við umsjón og úthlutun.  

Af framkvæmdarskýrslu kæranda fyrir sumarið 2022 telur ráðuneytið ljóst að kærandi réðst ekki í þær framkvæmdir sem styrkurinn var úthlutaður til sem og unnið hafi verið að framkvæmdum sem sérstaklega var tilgreint að ekki yrðu styrktar sbr. bréf Landgræðslunnar dags, 3. mars 2022.  

Þá telur ráðuneytið að ekki sé unnt að fallast á þau sjónarmið kæranda um að Landgræðslan beri ábyrgð á því verkin voru ekki unnin þar sem stofnunin vildi ekki styrkja tækjakaup enda kemur fram í 3. grein í reglum Landbótasjóðs Landgræðslunnar að styrkur verður ekki veittur úr sjóðnum vegna tækjakaupa.  

Af öllu framangreindu virtu er ljóst að ekki var unnið að þeim verkþáttum sem styrkúthlutun Landbótasjóðs árið 2022 tók til. Telur ráðuneytið því að Landgræðslunni hafi verið heimilt að hafna kröfu um greiðslu styrks að upphæð kr. 273.000 vegna verkefna sumarsins 2022.  

 

Úrskurðarorð

Ráðuneytið staðfestir ákvörðun Landgræðslunnar, dags. 4. nóvember 2022,  um að hafna greiðslu styrks að upphæð 273.000 kr úr Landgræðslusjóði fyrir árið 2022.  

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum